Toffee kaka með kaffinu
Þessi er hrikalega fljótleg og góð til að hafa með kaffinu, eða til að taka með í saumaklúbbinn. Hún svíkur engan, gott er að bera fram vanilluís og fersk jarðaber með henni.
Innihaldsefni:
250 gr. Döðlur
3 dl vatn
1 tsk. matarsódi
100 g smjör, mjúkt
3 msk sykur
2 egg
150 g hveiti
½ tsk lyftiduft
1 tsk kanill
1 msk vanilludropar
sósan:
100 gr púðursykur
120 gr smjör
1 msk vanilludropar
maldon sea salt
¾ dl rjómi
Döðlumauk:
Byrjið á að setja döðlurnar í pott með 3 dl af vatni saman við. Látið suðuna koma upp, lækkið undir og hrærið vel þar til blandan verður orðin frekar þykk og vatnið að mestu gufað upp. Bætið 1 tsk matarsóda útí og maukið með töfrasprota.
Nú er gott að hita ofninn á 180 gráður.
Deigið:
Takið því næst 100 gr smjör við stofuhita og 3 msk sykur og þeytið þar til ljóst og létt. Bætið einu eggi í einu útí og hrærið vel. Því næst er döðlumaukinu blandað saman við og hrært, þar til allt blandast vel saman. Að lokum er hveitinu bætt útí og 1 tsk kanill og 2 tsk vanilludropar. Öllu blandað saman.
Því næst er kringlótt form smurt og deiginu skellt í formið, og bakað í u.þ.b 35 min eða þar til kakan hefur lyft sér vel og er orðin gyllt að lit.
Saltkarmellan:
Bræðið smjör og púðursykur saman á pönnu og bætið rjómanum við. Passið að hræra vel svo hún brenni ekki við og ekki hafa of háan hita.Bætið vanilludropum útá og sirka 1 tsk af maldon sjávarsalti.Þegar farið er að krauma í henni takið þá af pönnunni og setjið í skál.
í lokin:
Hellið karmellunni yfir kökuna og skiljið smá eftir í skálinni ef sumir vilja meira með ísnum. Skerið jarðaber og berið fram.
Það gæti einnig verið sniðugt að setja piparkökumylsnu í botninn áður en hún er bökuð og blanda smá smjöri við svo hann haldist saman. (einsog gert er við ostakökubotnana) Og setja hvíta súkkulaðibita í deigið sjálft.
Þessi kaka er svo ljúffeng að þið trúið því ekki. Margir þekkja eflaust þessa uppskrift en það er nú bara stutt síðan ég prófaði hana í fyrsta skipti og ég varð bara alveg heilluð. Mér finnst eitthvað svo jólalegt við hana, kannski er það kanil og vanillubragðið hver veit.
Kær kveðja
Íslensk heimili
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!