Ég man þegar ég var lítil stelpa og stofugluggarnir heima voru fullir af allskyns plöntum. Mamma fékk sér oft kaffi um helgar og hellti restinni úr bollanum stundum í pottinn hjá plöntunum. Mér fannst það stundum mjög skrýtið, en það er víst góð næring í kaffinu fyrir plönturnar. Ég man oft eftir því að hafa legið á stofugólfinu heima með fullt af litum og pappír og teiknaði öll skemmtilegu blómin og litlu hlutina heima í stofu.
Ég er alveg viss um að ég hafi blómaáhugann frá henni móður minni. En það er þó ekki nema sirka 7 ár síðan ég fór að hafa verulega mikinn áhuga á þeim og fræðast mikið um blóm. Ég byrjaði svo að kaupa mér eina og eina plöntu og eru þær hátt í 20 talsins núna. En það er svo gaman hversu ólíkar þær eru og sjá þær vaxa og dafna. Svo auðvitað hefur maður lent í að einhverjar þeirra deyji líka. Ég hef tekið með mér plöntur heim frá útlöndum, sem er svo gaman þá fylgir þeim svo skemmtileg saga.
Um daginn sýndi ég frá plöntum sem ég kom með heim frá Danmörku, en þeir sem hafa áhuga getið fylgst með islenskheimili á snapchat. Þar sýni ég reglulega frá plöntum, heimilinu, eldamennsku o.fl
En ef þú ert í plöntuhugleiðingum þá er gott að hafa í huga að ekki allar plöntur eru öruggar í kringum börn og gæludýr. Því oftar en ekki eru blöðin eitruð. Mér fannst mjög áhugavert að vita það afhverju sumar plöntur eru eitraðari en aðrar, en það er vegna þess að margar plöntur hreinsa loftið inni hjá okkur og taka óæskileg eiturefni úr loftinu sem koma með efni í húsgögnum, málningu, reykingalykt, myglusvepp o.þ.h Efnin fara í plöntur og þar á meðal blöðin og þegar gæludýrið þitt nartar í blöðin þá verður það fyrir eitrun sem er af völdum þessara efna. Og gæludýrið getur orðið mjög veikt.
Þegar ég uppgötvaði þetta þá fannst mér þetta alveg magnað og þykir enn. Þannig ef þú vilt bæta loftgæðin inni hjá þér þá er um að gera að sanka að sér nógu mörgum plöntum, en ef að þú ert með litla óvita eða gæludýr þá er gott að staðsetja plöntuna þar sem þau ná ekki til.
Svo er einnig ráðlagt að strjúka rykið sem myndast á blöðunum á plöntunum í burtu eða einfaldlega spúla yfir þær í sturtunni með vatni. Því þegar blöðin eru hrein á plöntunum þá vinna þær betur við að hreinsa loftið inni hjá þér og það auðveldar þeim að stækka og líða vel.
Svo langar mig líka að tala aðeins um vökvun á plöntum. Því oft er talað um að vökva eigi einu sinni í viku eða jafnvel sjaldnar. En gott er að hafa í huga að ekki er eins loft inni hjá okkur öllum. Hjá sumum er loftið þurrara eða meiri raki hjá öðrum.
Svo eru sumar plöntur sem þurfa bara meiri vökvun og hjá öðrum má líða lengri tími. Mér finnst góð regla að athuga frekar hvernig moldin lítur út hjá plöntunum. Gott er að stinga puttanum örlítið niður í moldina sirka 1 cm. Ef hún er mjög þurr þá er gott að vökva. En ef hún er enn frekar rök þá þarf ekki að vökva strax.
Best er að vökva í undirskálina og hafa pottinn með götum að neðan. Þannig að plantan taki vatnið upp í ræturnar. Stundum þegar vökvað er of mikið í moldina þá fara að koma litlar flugur sem geta pirrað mann mikið. Til eru ýmis ráð við þessum flugum en það sem hefur virkað best fyrir mig er að blanda grænsápu og vatn saman í vatnsbrúsa og úða í moldina í nokkra daga þar til þær hverfa.
Ég vona að þessi ráð komi ykkur að góðum notum. Næst skulum við skoða umpottun blóma betur og hvaða plöntur henta þeim sem eru að hefja sín fyrstu plöntukaup.
Kær kveðja
Ágústa
Fallegar plöntur. Hvaða plöntur eru eitraðar? T.d. af svona hengiplöntum. Er með plöntuóðan kött og þori ekki að fá mér plöntu ef hún sé eitruð.
Sæl Alma
Mánagull er t.d eitruð því hún hreinsar loftið mjög vel og einnig Bergflétta. Ég á alveg eftir að taka plöntur fyrir hér á blogginu og fjalla um hverja fyrir sig. Svo er oft sniðugt að hafa þær bara frekar hátt uppi þar sem þeir ná ekki til.