Planta vikunnar að þessu sinni heitir Monstera Oblique

 

 

Ég elska að finna nýjar og skemmtilegar plöntur, Monstera oblique er ein af þeim sem kemur skemmtilega á óvart.
Hún er skyld Monsteru Deliciosa sem margir þekkja, öðru nafni kölluð Rifblaðka.

Monstera Oblique (öðru nafni swiss cheese) er ekki eins plássfrek og Rifblaðkan. Blöðin eru með ílöngum götum á sem minnir á swiss cheese. Græni liturinn er afskaplega fallegur og stundum glansa blöðin örlítið.
Ég var mjög ánægð að sjá hana hér á landi og leynist hún oft í helstu blómabúðum landsins og eigum við hana líka stundum hérna í versluninni.

Mér finnst plantan einstaklega skemmtileg því þegar hún stækkar þá fara blöðin að hanga niður og verða að einskonar skúlptúr. En einnig er hægt að setja prik í moldina til að láta hana klifra upp eftir því. Það er auðvelt að aðlaga hana að umhverfinu, ég kýs að láta hana vaxa villt og hef hana í vegghillu í stofunni þar sem hún nýtur sín einstaklega vel.

 

 

Tegund: Monstera oblique öðru nafni swiss cheese á uppruna sinn í hitabeltislöndum. Blöðin eru ávöl og elstu blöð plöntunnar eru oftast örlítið dekkri að lit. Götin á plöntunni leyfa vindum og birtu að skína í gegn. Plantan er mjög harðgerð.

Staðsetning og birta: Plantan þolir að vera í hálfskugga, en ef hún er höfð í örlítið meiri birtu þá mun hún að sjálfsögðu vaxa hraðar og blöðin verða stærri einsog með flestar plöntur. Tilvalið að láta hana vera í hillu á vegg eða í hengipott ef planið er að láta hana vaxa villt, þegar plantan stækkar þá fer hún að hanga niður sem getur oft minnt á fallegan skúlptúr vegna þess hversu falleg blöðin eru. Monsterunni líkar vel að vera inni á baði þar sem er raki eða í eða nálægt eldhúsi, vegna þess að hún er hitabeltisplanta þá finnst henni mjög gott að láta úða yfir sig með vatni.

En það er einnig hægt að hafa hana á borði eða plöntustand og setja prik í pottinn og leyfa henni að klifra upp prikið. það er hægt að leika sér svolítið með hana og hafa smá stjórn á því hvernig hún vex.

vökvun: Moldin þolir alveg að þorna svolítið á milli, betra að vökva hana minna en of mikið. Ráðlagt að vökva einu sinni í viku en sjaldnar yfir vetrartímann. Oft er einnig gott að setja puttann í moldina til að athuga rakann í moldinni, ef hún er mjög þurr þá er gott að vökva.

Stærð: Hún getur orðið margra metra há þegar hún vex villt í náttúrunni í hitabeltislöndunum, en hér heima mun hún ekki verða það stór eða um 50 cm til einn meter á hæð. Það er alltaf mjög auðvelt að klippa hana til ef hún verður of plássfrek.

Er hún eitruð: monstera er eitruð, en munið að plöntur sem eru eitraðar hreinsa loftið inni hjá okkur betur en þær plöntur sem ekki eru eitraðar. Gott er að hafa hana þar sem börn eða gæludýr ná ekki til.

Fyrir hvern: Fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.

 

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.