, ,

Street food steikar tortilla

Djúsí street food steikar tortilla sem þið verðið að prófa!

Þessi uppskrift dugar í sirka 4 stórar vefjur.

Það er að detta í helgina, og upp kemur þessi týpíska spurning hvað eigum við að elda. Og oft vill maður nú hafa eitthvað voða djúsí og gott í matinn um helgar. Þessar street food steikar tortillur eru ekta laugardagsmatur. Fljótlegt, svakalega gott og bragðmikið, án þess að vera rosalega sterkt.

 

Það sem þarf er:

Nautakjöt

Nachos flögur með salti

1 gulur laukur

Chorizo (ekki í sneiðum)

tvö hvítlauksrif

rauður chilli

ferskt kóríander

hakkaðir tómatar í dós

Stórar heilhveiti vefjur

Lime

Salt og pipar

kál

Tómatar

 

Byrjum á sósunni:

Skerið 1 gulan lauk , handfylli af kóríander, 2-3 hvítlauksrif , hálft rautt chilli og sirka 10 cm langan bút af chorizo pulsu (keypti hana í hagkaup, þessi sem er í sneiðum, glútenlaus o.fl er ekki eins góð, frekar gúmmíkennd)

Steikið þetta allt á pönnu með smá olíu, þar til laukurinn verður gylltur á lit. Opnið því næst 1 dós af hökkuðum tómötum og setjið útá pönnuna, hrærið vel.Látið suðuna koma upp og hrærið af og til þar til sósan verður orðin frekar þykk og allur safinn úr tómötunum er gufaður upp.Þá er gott að taka sósuna af pönnunni og setja í skál.

 

Kjötið:

Núna er kominn tími á að steikja kjötið. Gott er að lemja það með kjöthamar og láa það vera eins þunnt og þið getið. Það gerir það að verkum að kjötið verður fljótar tilbúið og þá fáið þið svona þunna fína bita fyrir vefjuna. Setjið smá olíu á pönnu og kryddið kjötið með salt og pipar. Steikið á sitthvorri hliðinni í örfáar mínútur og passið og ofelda það ekki.

Takið það svo af pönnunni og látið standa örlítið, oft eldast kjötið aðeins eftir að það er tekið af pönnunni, þannig það er fínt ef það verður svona pínu bleikt í miðjunni þá er það fullkomið fyrir þennan rétt.

Að lokum:

myljið nachos í skál. saxið kóríander, skerið tómata í litla bita og fleira grænmeti ef þið kjósið. Gott er að skera meiri chorizo pulsu og léttsteikja hana á pönnunni, skera svo í litla bita og nautakjötið líka, þar að lokum er öllu blandað saman og sett í skál, rosalega gott að kreista svo smá lime yfir allt. Salat skolað og sett í skál og sýrður rjómi lagður á borð.

 

Svo er bara að setjast niður og njóta.

Þetta er ekta laugardagsmatur! Njótið í góðra vina hóp eða með fjölskyldunni.

Kær kveðja
Íslensk heimili

, , ,

Mexíkó kjúklingasúpa

Æðislega góð mexíkó kjúklingasúpa fyrir 3-5

 

Mexíkó kjúklingasúpa hefur lengi verið uppáhalds súpan mín, það er auðvelt að útbúa hana og svo er hún svo hrikalega bragðmikil og góð. Hvað er betra en að útbúa hana á svona köldum vetrardegi og kúra undir teppi.

Mig langar til að gefa ykkur uppskriftina og vonandi njótið þið hennar eins mikið og ég.

 

 

Það sem þarf er:

2x Hunt´s diced tómatar í niðursuðudós með garlic,oregano og basil (er í dósum fæst í bónus)

1-2 tsk tómatpúra frá hunt´s með garlic,oregano og basil

1 lítinn rauðan lauk

lítinn pela rjóma

handfylli af fersku kóríander

2 hvítlauksrif

1 rauð paprika

2 kjúklingabringur

6 miðlungsstórar kartöflur

2x miðlungsstórar gulrætur

1x gulur doritos poki

sýrður rjómi

rifinn ostur

1 tening klar boulion kraft

fiesta de mexico krydd frá pottagöldrum

smoked paprika krydd

örlítið cayenne pipar(fer eftir hversu sterk þið viljið að súpan sé)

oregano

salt/pipar

 

 

Aðferð:

Byrjið á að taka 2 dósir af hunt´s diced tómötunum, hellið í skál og maukið með töfrasprota.

Skerið kjúklinginn í bita og steikið á pönnu, hellið tómatmaukinu í miðlungsstóran pott og bætið kjúklingnum ofaní.

Skerið 1 lauk, paprikuna og saxið kóríander og hvítlauk og bætið útí pottinn.

Hrærið örlítið og bætið sirka 2 dl af vatni við.

Skrælið 6 miðlungsstórar kartöflur og skerið í litla teninga.

Skrælið 2 miðlungsstórar gulrætur og skerið í bita.

Bætið þessu svo útí pottinn og látið það sjóða saman með súpunni. Þegar það er búið að sjóða í smá tíma, bætið þá 1-2 msk af tómatpúru við. Næst skulum við snúa okkur að kryddinu, takið sirka ½ tsk af salti og örlítinn pipar. Sirka 1 msk af fiesta de mexico, 1 msk af oregano, og hálfa msk af smoked paprika. Síðan getið þið smakkað á súpunni og bætt við cayenne pipar ef þið viljið hafa hana heitari.

Bætið klar boulion kraft útí, og litlum pela af rjóma. Hrærið svo vel í súpunni og leyfið öllu kryddinu að blandast vel og súpunni að sjóða vel. Ég leyfi henni oft að malla í sirka 30 min áður en ég ber hana fram og bæti við kryddi ef ég vil bragðbæta meira eða bæti smá vatni ef mér finnst hún of sterk.

Gott er að leggja á borð á meðan súpan sýður. Setja Doritos í skál, sýrðan rjóma á borð og rífa ost niður eða kaupa tilbúinn rifinn ost í poka og bera á borð.

 

 

Þessi súpa er einstaklega bragðgóð og það má alveg leika sér svolítið með hana, setja t.d jalapeno bita fyrir þá sem þora, stundum hef ég líka notað ferskan rauðan chilli eða sett mexikó ost í hana. Sett fleiri tegundir af papriku t.d græna og gula. Bara það sem maður á til í ískápnum.

Svo þegar súpan er tilbúin þá er bara að bera hana á borð og njóta með bestu lyst.

Verði ykkur að góðu.