, ,

Planta vikunnar Eucalyptus

Planta vikunnar að þessu sinni er Eucalyptus

Ég valdi Eucalyptus sem plöntu vikunnar því það eru ekki margir sem vita að Eucalyptus greinarnar sem margir kaupa í blómabúðunum og setja í vasa, fást líka í pottum.

Þær koma oft á vorin í blómabúðirnar og höfum við í versluninni einnig haft hana í sölu. Ilmurinn er yndislegur og svo eru blöðin og liturinn svo ákaflega fallegur.

Ég rakst fyrst á Eucalyptus plöntu á Pinterest. Mér fannst hún svo ákaflega falleg að ég varð að eignast eina. Þegar ég kom með hana heim þá tók ég eftir því að hún þornaði eftir frekar stuttan tíma. En það er mjög mikilvægt að vökva hana mjög vel, helst annan hvorn dag. Það getur verið erfitt að halda henni góðri innandyra. Ég hef prófað að kaupa mér hana tvisvar og gefist upp.

Ég hef heyrt að Eucalyptus plönturnar þola allt að 10 stiga frost sem mér finnst alveg magnað því ég hélt alltaf að þær þoldu ekki mikinn kulda. Ég prófaði mig áfram og setti eina litla út í Maí mánuð og hún dafnaði einstaklega vel án mikillar fyrirhafnar. Hún var fín alveg fram í janúar en þá gleymdi ég aðeins að vökva hana, það er gott yfir mesta kuldann að kippa henni innfyrir en ekki hafa hana nalægt ofn og passa að moldin þorni ekki.

Ef þið lendið í því að greinarnar eða nokkur blöð þorni þá er best að klippa það strax í burtu. Ef plantna gleymist og allar greinar þorna þá mæli ég með að klippa þær af og halda stofninum, ekki klippa hana alveg niður við mold.

Eftir smá tíma þá byrja nýjar greinar að vaxa, nema ef ræturnar hafa fengið skaða þá er plantan dauð. En ég myndi alltaf prófa að halda áfram að hugsa um hana og vökva smá og sjá hvort hún taki ekki við sér.

 

 

Ef þú ert að hugsa um að rækta Eucalyptus í potti þá eru ýmis atriði sem þarf að hafa í huga, við skulum líta á þau:

Tegund: Samkvæmt heimildum sem ég fann á netinu þá eru til yfir 500 tegundir af Eucalyptus. Plantan kemur upprunalega frá Ástralíu, og eru flestar tegundirnar ræktaðar sem tré, en margar þeirra eru einnig runnar. Eucalyptus er græn allan ársins hring, en getur þó misst sum laufin. nýjustu laufin á plöntunni eru oftast ljósgræn en dökkna eftir því sem plantan eldist.

Það er hægt að nota olíuna af plöntunni í ýmislegt einsog t.d varasalva, í te o.fl en ég ætla ekki að fara ítarlega í það hér. Hægt er að finna ýmislegt um það á netinu. Gaman er að segja frá því að hún er á topp 10 lista hjá NASA yfir plöntur sem bæta loftgæðin inni hjá okkur.

Staðsetning og birta: Til að plantan þrífist sem best þá þarf hún góða birtu, helst í suður glugga. Plantan vex mest þegar hitinn fer yfir 8 gráður. En athugið að þurrt loftið inni hjá okkur getur þurrkað plöntuna mjög fljótt, Mér hefur reynst vel að hafa hana úti í potti, það auðveldar umhirðu hennar mjög mikið.

Vökvun: Eucalyptus plantan er mjög þyrst ef hún er höfð inni, ég myndi mæla með að vökva hana vel og vökva hana mun oftar en bara vikulega. Gott er að fylgjast með moldinni og alls ekki láta hana þorna of mikið á milli vökvunar, þá er hætta á að blöðin skrælni. Ef plantan er höfð úti í potti þá þarf síður að vökva hana svona oft.

Stærð: Hún getur orðið ansi há en vex mest yfir sumartímann, margir klippa þá bara aðeins ofan af henni og nota greinarnar í að búa til kransa eða í önnur verkefni.

Er hún eitruð: Eucalyptus er ekki eitruð.

kveðja
Ágústa

, ,

Planta vikunnar Medinilla

Planta vikunnar að þessu sinni er hin undurfagra Medinilla.

Ég sá hana fyrst þegar ég var að skoða instagram og varð bókstaflega dolfallinn. Þessi planta blómstrar svo hrikalega fallegum stórum bleikum blómum. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með henni vaxa og dafna. Mig var búið að langa mjög lengi í hana eða rúmlega ár, ég spurði oft fyrir um hana í blómaverslunum hér heima en hún var aldrei til.

Svo átti ég leið mína í Bauhaus og rakst þar á fjöldann allann af fallegum plöntum. Fannt þeir einmitt vera með plöntur sem ég hafði ekki séð í helstu blómaverslunum landsins. Ég ákvað því að spurja dreng sem ég sá að var að vinna í blómadeildinni hvort hann hafði einhverntímann pantað Medinillu. Hann sagði mér að svo hefði verið, en frekar langt síðan.

Hann var mjög áhugasamur og vildi endilega panta hana fyrir mig, eftir að ég sagði honum hversu erfitt væri að eignast þetta blóm hér á landi. Hann tók niður nafnið mitt og símanúmer og sagðist senda mér sms þegar hún kæmi. Rúmlega tvem vikum síðar fæ ég sms og bruna í verslunina. Fékk að fara bakatil á lagerinn og velja mér eina. Ég var einsog barn í leikfangaverslun. Hrikalega spennt og ánægð að taka þessa fallegu plöntu með mér heim.

 

Það eru til ýmis afbrigði af Medinillu en sú sem ég fékk í Bauhaus var með dökkbleikum blómum og heitir Medinilla Royal intenz.Sú sem mig langar að eignast núna er með ljósbleikum og heitir Medinilla Magnifica.

 

Skoðum aðeins hvernig er best að hugsa um hana

Tegund:  Medinilla er hitabeltisplanta sem getur orðið allt að einn og hálfur metri að stærð. Medinilla vex í hitabeltisskógum einsog orkedíurnar í holum trjáa og á þeim, En hefur verið ræktuð innandyra í hundruð ára. Hún er einnig kölluð Rose grape, philipinne orchid, Pink lantern plant eða chandelier tree. Seint á vorin eða í byrjun sumars byrjar hún að blómstra fallegum bleikum blómum sem hanga niður milli laufblaðanna. Hún getur blómstrað í allt að 6 mánuði.

Staðsetning og Birta: Medinilla þarf að vera á hlýjum stað og vill hafa raka í lofti til að halda lífi. Hún þolir ekki ef hitastigið fer niður fyrir 10 gráður. Best er að halda hitastiginu í 17 – 25 gráðum. Hún elskar hlýju frá sólinni en ekki að standa beint í sterku sólarljósi útí glugga. Gott er að halda henni í smá fjarlægð en þannig að hún fái góða birtu. Svo er gott að halda henni í köldu lofti á næturnar. Því það hjálpar henni að auka vöxt blómanna.

Vökvun:  Ólíkt Orkedíum þá tekur Medinilla ekki raka og næringu gegnum loftrætur. Hinsvegar hefur hún stór falleg græn blöð sem heldur rakanum og næringu inní svipað og þykkblöðungar gera. Það er gott að vökva hana mjög vel einu sinni í viku. Einnig er gott að úða yfir hana reglulega með volgu vatni. Sérstaklega á þurrum köldum vetrardögum. Hún mun líka elska það ef þú ert með rakatæki í gangi á heimilinu, sérstaklega yfir vetrarmánuðinn. Haltu henni frá opnum gluggum eða hurðum þar sem mikill gegnumtrekkur kemur.

Stærð: Getur orðið allt að einn og hálfur metri að stærð.

Er hún eitruð: Medinilla er ekki eitruð.

Kveðja
Ágústa

, ,

Planta vikunnar – Button fern

Þá er komið að næstu plöntu í planta vikunnar hjá mér. Ég er búin að vera mjög hrifin af því að kaupa mér litlar plöntur núna og heillast ég mikið af burknum. Móðir mín átti afar stóran og fallegan Boston fern burkna þegar ég var lítil. En ég hef verið að taka eftir nýjum tegundum af honum, já allavega nýjum fyrir mér þar sem ég hef ekki pælt mikið í þessari plöntu fyrr en núna nýlega.

Button fern, Maidenhair fern og Lemon button fern eru í uppáhaldi. Málið með Maidenhair fern er að það er svakalega erfitt að þóknast honum, heimtar vatn í sífellu og svo má helst ekki strjúka blöðin á honum því fita af fingrum manns getur skemmt blöðin. Hún er líka ekki kölluð diva of all houseplants fyrir ekki neitt. Ég hef keypt þrjár litlar Maidenhair fern og allar bregðast þær mér já eða ég þeim. en hún er ákaflega falleg, með fíngerð blöð sem minna á blúndu.

Maidenhair fern plantan mín

Lemon button fern er svo næsti burkni sem mér finnst ákaflega fallegur og fjárfesti ég í einum um daginn.
Hann er ákaflega lítill og fallegur en á eftir að stækka töluvert.

Lemon button fern sem ég keypti í Blómaval um daginn.

Svo er það Button fern sem ég ætla að taka fyrir hér að neðan, en hana sá ég fyrst á ferðalagi um Danmörku.
Mér til mikillar ánægju sá ég hann svo og alla þessa hér að ofan í Blómaval um daginn.

Button fern plantan mín

En hvernig er best að hugsa um þessar plöntur?

Tegund: Button fern öðru nafni The Pallaea rotundifolia á rætur sínar að rekja til Nýja sjálands og vex hún þar yfirleitt milli kletta í skógum. Þú þekkir hana á hringlaga leðurkenndum blöðum. Þegar þú fjárfestir í Button fern þá getur hún verið voðalega picky í fyrstu. Og það getur vissulega tekið smá tíma að finna út hversu mikla umönnun hún vill. En þegar þú hefur fundið út hversu oft hún vill vatn og hvar henni finnst best að vera þá á hún eftir að vera aðalsstjarnan á heimilinu.

Birta: Hún nýtur sín best í smá birtu en þolir einnig að vera á dimmum stað einsog t.d inni á baði.
Passa skal að hafa ekki button fern í sterku beinu sólarljósi.

Staðsetning: Button fern nýtur sín í hillu, á borði og sumir hafa sett hana í hangandi pott.

Vökvun: Það getur verið erfitt í fyrstu að finna nákvæmlega út hversu oft eða mikið vatn Button fern kýs. En mælt er með að láta moldina þorna örlítið milli vökvana og ekki láta hana liggja lengi í mjög blautri mold. Hægt er að fylgjast með blöðunum á henni en ef þau lafa mikið þá er hún þyrst.Gott er að stinga puttanum örlítið ofaní moldina til að finna hvort hún þarfnist vatns eða ekki.

Stærð: Hún getur orðið 20-30 cm há og um 30 cm á breidd þannig hún er ekkert voðalega plássfrek.

Afleggjari: Þegar tekinn er afleggjari af Button fern þá er gott að taka mjög beittan hníf og skera smá part af plöntunni og koma svo fyrir í nýjum litlum potti.

Er hún eitruð: Button fern er ekki talin vera eitruð börnum og gæludýrum.

Ég vona að ég hafi ekki ruglað ykkur of mikið með mismunandi týpum af burknum en mér finnst þær bara svo ótrúlega skemmtilegar plöntur. og langaði að nefna mínar uppáhalds. Þær þurfa ekki allar eins umönnun og getur munað örlitlu milli þeirra einsog t.d með raka og annað.

Vonandi hafið þið gaman af þessum nýja lið hér á blogginu.

kær kveðja
Ágústa