, ,

Rustic pottar og plöntur

Plöntu og potta pælingar dagsins!

Mér finnst ákaflega gaman að rölta um blómabúðir og skoða úrvalið, og oftar en ekki fær ein til tvær plöntur að fylgja mér heim. Ég er oft búin að ákveða fyrirfram hvaða plöntur það eru sem heilla mig, ég elska líka þegar að plantan sem hefur verið á óskalistanum um langan tíma birtist einn daginn í blómabúðinni. það eru skemmtilegustu heimsóknirnar í blómabúðirnar.

Mér finnst oft gott að bíða aðeins með að kaupa utanyfir pottinn, sem sagt sem fer utanum plastpottinn. það er vegna þess að oft þarf að umpotta plöntunum og þá er hinn potturinn sem þú fjárfestir í jafnvel of lítill.
En þegar það þarf að umpotta henni þá er best að kaupa aðeins rýmri plastpott, vikur (stórar leirkúlur) sem fást í litlum pokum í blómabúðunum, og nýja ferska mold.

Blómakaupendur vilja líka oft stressa sig of mikið á að umpotta en stundum er líka bara gott að leyfa plöntunni að venjast nýja heimilinu, það eru önnur loftgæði t.d í blómabúðinni heldur en heima hjá okkur. Svo er fínt að taka sér smá tíma í að finna fallegan pott, því að mér finnst þeir í raun skipta jafn miklu máli og plantan sjálf. Þeir breyta útliti plöntunnar mjög mikið, ég myndi segja að þetta væri svona svipað og fyrir okkur mannfólkið  þegar við konurnar förum í fallegan kjól þá er heildarútlitið orðið allt annað heldur en þreyttur joggingalli. Við eigum að gefa okkur smá tíma í að finna fallegan kjól fyrir plöntuna okkar. Þá nýtur hún sín sem best á heimilinu og fegrar það enn meira.

 

Undanfarið hef ég heillast mjög mikið af fallegum  Rustic pottum

 

Brúnir keramik pottar passa mjög vel við fallega grænar plöntur, sem eru með sérkennilegum áberandi blöðum, einsog t.d fíkjutré og pilea.

 

Fíkjutré er í miklu uppáhaldi hjá mér og það lifir góðu lífi inni í stofu.

 

Rustic blómapottar þurfa ekki alltaf að vera mjög grófir og líta út fyrir að vera gamlir og notaðir, þeir geta líka verið svartir og mjög hlutlausir í útliti. Eins og t.d þessi hér að neðan, sem passar mjög vel við plöntuna skýjablett.

 

ótrúlega fallegt, hlutlaus svartur pottur þar sem plantan fær að njóta sín.

 

ólífutré hafa verið ótrúlega vinsæl og þá aðallega svona minni dvergtýpa, Blöðin á ólífutrjám eru svona silfurgrá undir og fallega græn ofaná. Þessvegna finnst mér  grár grófur pottur passa einstaklega vel við hana.

 

Pottar með svona steypuáferð eru ótrúlega sjarmerandi.

 

Þessi planta heitir smæra.

 

Fallegast finnst mér það þegar að plantan fær að njóta sín í einföldum en fallegum potti. Um leið og plantan er komin í mjög áberandi marglitan pott þá finnst mér potturinn taka alla athyglina frá fegurð plöntunnar, og þar af leiðandi nýtur hún sín ekki eins og hún ætti að gera.

 

 

Pottarnir þurfa nú ekkert endilega að vera bara í brúnum, gráum, svörtum og hvítum pottum. Með haustinu væri fallegt að hafa þá í t.d grænum  pottum einsog þessi hér fyrir ofan. Græni liturinn tónar mjög fallega við grænu plöntuna svo eru undirskálar í stíl líka ákaflega smart.

Þetta voru  pælingar dagsins um Rustic potta og plöntur!

Kveðja
Ágústa

, ,

Vatnaplöntur

Plöntur í glervösum með vatni í kemur ótrúlega vel út. 

Ég vafra mikið um á netinu og fylgist mjög mikið með nýjustu trendunum og það sem ég hef rekist á undanfarið eru plöntur sem eru hafðar í glervösum með vatni í. Já fyrst fannst mér þetta svolítið undarlegt, en núna þegar ég er byrjuð að sjá meira og meira af þessu þá er þetta bara nokkuð flott. Eina sem þarf að huga að er að passa að skipta um vatn reglulega, til að plantan haldist fersk og fín.

Við skulum líta á nokkrar myndir af þessari snilldar hugmynd.

 

Hér er þykkblöðungur settur í mjög einfaldan vasa.

Það er allskyns úrval af glervösum í verslunum sem kosta ekki mikið og gaman gæti verið að hafa nokkra svona litla þykkblöðunga saman í hóp í misháum glervösum.

 

Fíkjutré í smart vasa.

 

Fíkjutré eru í miklu uppáhaldi hjá mér, og er ég með eitt þannig heima og einnig í versluninni. Það sem heillar mig við þau er lagið á blöðunum, en það er frekar sérkennilegt en ákaflega flott. Svo getur fíkjutréð orðið mjög stórt, en ekkert mál að klippa þá bara af því. Það eru margir sem halda að ekki sé hægt að hafa sítrónu, fíkju og ólífutré inni hjá sér, en það er algengur misskilningur. það koma ef til vill ekki ávextir á það en þau eru bara svo flott, og skreyta rýmið mjög mikið.

 

Hér er búið að koma einu fyrir í string hillu. Mjög flott að hafa tvær bækur undir vasanum.

 

Tvö Eikar tré í skemmtilegum kringlóttum vösum. Það sama væri hægt að gera við Avocado steina.

 

 

Þeir sem eiga Pileu kannast eflaust við það vandamál að upp koma mjög mörg börn (litlir afleggjarar) Þá er mjög sniðugt að taka mismunandi litla glervasa og koma þeim fyrir þar.  En svo var ég reyndar að heyra það að ef þú vilt að plantan þétti sig vel, þá á ekki að taka afleggjarana sem spretta upp í moldinni heldur leyfa þeim að vera.

 

Þetta er ótrúlega smart hugmynd og finnst mér þetta enn sniðugura fyrir þá sem gleyma að vökva blómin sín. Svo er bara eitthvað svo töff við það að láta sjást svona í ræturnar á plöntunni.

Kveðja Ágústa

, ,

Plöntu instagram

Það er svo ótrúlega gaman að gleyma sér stundum við að skoða instagram, og sérstaklega ef maður er heppinn og finnur instagram síðu þar sem flest allar myndirnar veita manni innblástur.

Ég er með nokkrar skemmtilegar instagram síður sem ég kíki reglulega á og ætla ég að sýna ykkur plöntu áhugafólki hvaða instagram síður það eru, en dreifa þeim í nokkra pósta þar sem það eru svo margar síður sem ég fylgi. Kommentið endilega undir færsluna og segið mér hver ykkar uppáhalds plöntu instagram eru.

 

Mina Milanda

Falleg blómabúð í Noregi með um 18.000 fylgjendur. Þau selja einnig allskyns blómapotta og vasa frá mismunandi heimshornum sem allar eru handgerðar. Stundum hanna þau sínar eigin vörur ef þau hafa ekki fundið hana annarsstaðar til að flytja inn í verslunina. Maður getur sko alveg gleymt sér í að skoða fallegu myndirnar þeirra á instagram og einnig fallegu litlu videoin sem þau gera.

https://www.instagram.com/minamilanda/?hl=en

 

Little and lush

Anna er 24 ára gömul frá Sviþjóð og heldur úti instagram síðunni Little and lush. Myndirnar hennar eru einstaklega fallegar og sýna oft fallegar nærmyndir af plöntunum og einnig flottar uppstillingar. Hún er með yfir 28.000 fylgjendur á síðunni sinni.

https://www.instagram.com/littleandlush/?hl=en

 

Houseplant_fanatic

Þriðja og síðasta Plöntu instagram síðan sem ég ætla að sýna ykkur í dag er houseplant-fanatic  frá henni Vivian Jespersen sem býr í Danmörku. Hennar markmið er að breyta íbúðinni sinni í frumskóg. Myndirnar hennar eru dásamlega fallegar en hún er frekar ný á instagram og er eingöngu með um 1200 fylgjendur og færri myndir en hinir, en ótrúlega gaman að fylgjast með síðunni hennar stækka.

https://www.instagram.com/houseplant_fanatic/?hl=en

 

Ég ætla að segja þetta gott í bili af Plöntu instagram síðum sem vert er að skoða. En mun að sjálfsögðu segja ykkur frá fleiri svona gullmolum síðar.

Kær kveðja
Ágústa