,

Þegar ég var lítil …

Þegar ég var lítil stelpa þá elskaði ég að raða og gera fínt í herberginu mínu. Ég gat eytt löngum tíma í að breyta og gera fínt. Bróðir mömmu vann í kassagerðinni og kom oft með heilu staflana af þykkum hvítum pappír sem var búið að skera í mismunandi stærðir. Þennan pappa geymdi svo móðir mín á ganginum inní skáp þar sem ég gat alltaf nálgast pappír ef mig langaði til að teikna.

Ég eyddi mörgum stundum á stofugólfinu með pappír útum allt og allskyns liti og teiknaði blómin hennar móður minnar sem sátu eftir endilöngu í gluggakistunni í stofunni. Móðir mín átti allskyns stærðir og gerðir af plöntum kaktusum, burknum og fleiri tegundum.  Svo fannst mér líka voða gaman að teikna hillurnar og hlutina sem voru í þeim bækur, styttur, kertastjaka og lampa.

Móðir mín var mjög sniðug í að nýta það sem var til, og man ég eftir því þegar hún litaði áklæðið utan af sófanum fjólublátt. Og það misheppnaðist smá og varð svolítið misleitt en það kom bara frekar skemmtilega út. Hún var dugleg í að nýta hlutina vel og hoppaði ekkert endilega útí búð og keypti nýtt.

Mér fannst alltaf voða fínt og fallegt heima þegar ég var lítil og fannst gaman að vakna á morgnana við ristað brauðs lykt og kaffi ilminn sem lék um íbúðina. Þegar ég var lítil þá fóru krakkar út í leiki og notuðu ímyndunaraflið við leik.Ég og systir mín vorum mikið í sveit og lékum okkur í náttúrunni. Okkur fannst æðislegt að búa til drulluköku úr mold og setja hana á spýtu og skreyta með fallegum blómum sem við tíndum.

já það er gaman að rifja upp gamla tíma og sjá hvert lífið leyðir mann. Mig langaði aðeins að leyfa ykkur að kynnast mér betur áður en ég segi ykkur betur frá búðinni og hvernig hún varð til.

kveðja
Ágústa

0 athugasemdir

Skrifa athugasemd

Viltu taka þátt í umræðunni?
Endilega skrifaðu athugasemd!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.