, ,

Mini leirpottur fyrir afleggjara

Ég kíkti við í Blómaval í dag og rakst á þennan ótrúlega sæta mini leirpott. Hann er það lítill að hann passar í lófann minn.
Um daginn tók ég afleggjara af string of hearts plöntunni minni, því ef ég á að vera hreinskilin þá hef ég bara aldrei tekið afleggjara af plöntunum mínum og langaði að prufa mig áfram.
Ætli þetta verði svo ekki eitthvað hobby og um alla íbúð eiga eftir að finnast hinir ýmsu afleggjarar í svona sætum mini pottum.

En hann var nú ekki svona á litinn þegar ég keypti hann ég málaði hann með prufumálningu sem ég hafði fengið um daginn, því það eru framkvæmdir í gangi í svefnherberginu. Við ætlum að mála einn vegg, en það getur verið vandasamt að finna rétta litinn. það er ótrúlega auðvelt að taka afleggjara af string of hearts plöntunni, maður bara klippir smá bút og hægt er að setja hann beint í mold en ég kaus að hafa hann í vatni í nokkra daga fyrst. Og viti menn það eru að koma fullt af litlum nýjum blöðum á hann.

Ég hef aldrei átt string of hearts plöntu, en ákvað að prufa að fjárfesta í einni, mér fannst þessi svo falleg því það er svona ljósbleikt ofaná sumum blöðunum. Ég er voðalega hrifin af hengiplöntum núna og plöntum sem eru með hvítum og grænum eða bleikum og grænum blöðum.

Svo við höldum okkur nú við efnið þá málaði ég pottinn og klippti afleggjarann aðeins til svo hann myndi ekki hanga langt fyrir neðan pottinn. Setti smá vikur í botninn og mold. Bleytti aðeins í henni og setti litil göt þar sem ég vildi setja afleggjarana.

Stakk afleggjurunum ofaní moldina og þétti frekar vel, setti svo örlítið meiri mold í lokin. Og þá er komin þessi ótrúlega fallega mini string of hearts planta.

 

Hversu cute

 

Það er svo gaman að leika sér með svona afleggjara og hægt er að finna allskyns litla sæta vasa eða potta til að hafa þá í. Um að gera að leika sér með þetta og hafa gaman af.

Þangað til næst!

Kveðja
Ágústa

, ,

Planta vikunnar – Button fern

Þá er komið að næstu plöntu í planta vikunnar hjá mér. Ég er búin að vera mjög hrifin af því að kaupa mér litlar plöntur núna og heillast ég mikið af burknum. Móðir mín átti afar stóran og fallegan Boston fern burkna þegar ég var lítil. En ég hef verið að taka eftir nýjum tegundum af honum, já allavega nýjum fyrir mér þar sem ég hef ekki pælt mikið í þessari plöntu fyrr en núna nýlega.

Button fern, Maidenhair fern og Lemon button fern eru í uppáhaldi. Málið með Maidenhair fern er að það er svakalega erfitt að þóknast honum, heimtar vatn í sífellu og svo má helst ekki strjúka blöðin á honum því fita af fingrum manns getur skemmt blöðin. Hún er líka ekki kölluð diva of all houseplants fyrir ekki neitt. Ég hef keypt þrjár litlar Maidenhair fern og allar bregðast þær mér já eða ég þeim. en hún er ákaflega falleg, með fíngerð blöð sem minna á blúndu.

Maidenhair fern plantan mín

Lemon button fern er svo næsti burkni sem mér finnst ákaflega fallegur og fjárfesti ég í einum um daginn.
Hann er ákaflega lítill og fallegur en á eftir að stækka töluvert.

Lemon button fern sem ég keypti í Blómaval um daginn.

Svo er það Button fern sem ég ætla að taka fyrir hér að neðan, en hana sá ég fyrst á ferðalagi um Danmörku.
Mér til mikillar ánægju sá ég hann svo og alla þessa hér að ofan í Blómaval um daginn.

Button fern plantan mín

En hvernig er best að hugsa um þessar plöntur?

Tegund: Button fern öðru nafni The Pallaea rotundifolia á rætur sínar að rekja til Nýja sjálands og vex hún þar yfirleitt milli kletta í skógum. Þú þekkir hana á hringlaga leðurkenndum blöðum. Þegar þú fjárfestir í Button fern þá getur hún verið voðalega picky í fyrstu. Og það getur vissulega tekið smá tíma að finna út hversu mikla umönnun hún vill. En þegar þú hefur fundið út hversu oft hún vill vatn og hvar henni finnst best að vera þá á hún eftir að vera aðalsstjarnan á heimilinu.

Birta: Hún nýtur sín best í smá birtu en þolir einnig að vera á dimmum stað einsog t.d inni á baði.
Passa skal að hafa ekki button fern í sterku beinu sólarljósi.

Staðsetning: Button fern nýtur sín í hillu, á borði og sumir hafa sett hana í hangandi pott.

Vökvun: Það getur verið erfitt í fyrstu að finna nákvæmlega út hversu oft eða mikið vatn Button fern kýs. En mælt er með að láta moldina þorna örlítið milli vökvana og ekki láta hana liggja lengi í mjög blautri mold. Hægt er að fylgjast með blöðunum á henni en ef þau lafa mikið þá er hún þyrst.Gott er að stinga puttanum örlítið ofaní moldina til að finna hvort hún þarfnist vatns eða ekki.

Stærð: Hún getur orðið 20-30 cm há og um 30 cm á breidd þannig hún er ekkert voðalega plássfrek.

Afleggjari: Þegar tekinn er afleggjari af Button fern þá er gott að taka mjög beittan hníf og skera smá part af plöntunni og koma svo fyrir í nýjum litlum potti.

Er hún eitruð: Button fern er ekki talin vera eitruð börnum og gæludýrum.

Ég vona að ég hafi ekki ruglað ykkur of mikið með mismunandi týpum af burknum en mér finnst þær bara svo ótrúlega skemmtilegar plöntur. og langaði að nefna mínar uppáhalds. Þær þurfa ekki allar eins umönnun og getur munað örlitlu milli þeirra einsog t.d með raka og annað.

Vonandi hafið þið gaman af þessum nýja lið hér á blogginu.

kær kveðja
Ágústa

, ,

Planta vikunnar – String of hearts

Vegna mikilla fyrirspurna frá ykkur varðandi hinar og þessar plöntur þá ákvað ég að bæta við þessum lið hérna á bloggið sem ber heitið planta vikunnar.  Ég mun taka fyrir eina plöntu í hverri viku og skella hér inn upplýsingum um hana. Vona að þið takið þessum nýja lið hér á blogginu með bros á vör og mun ég reyna mitt besta við að halda honum á lofti.

Að þessu sinni ætla ég að fjalla örlítið um String of hearts (Ceropegia woodii)

Hengiplöntur eru að koma sterkt inn og er string of hearts er ein af þeim. Þessi fallega planta kannast eflaust margir við, en hún var tíð í húsum hjá ömmum og öfum hér í gamla daga.

Tegund: String of hearts er ein tegund þykkblöðungs, þær eiga uppruna sinn að rekja til Suður Afríku og Zimbabwe, en þykkblöðungar þurfa ekki mjög mikla vökvun vegna þess að þeir eru duglegir að geyma vatn í blöðunum. Ég hef séð þá dökkgræna með smá fjólubláu undir blöðunum en svo rakst ég á einn þegar ég var stödd í Plantorama í Danmörku um daginn með hvítum og grænum blöðum og örlitlu bleiku í. Þannig að þeir koma greinilega í margskonar litaafbrigðum.

Birta: String of hearts vill mikið sólarljós en einsog með flestar plöntur er ekki gott að láta þær standa í mjög mikilli sól á heitum sumardögum í stofuglugganum.
Þegar plantan fær mjög góða umönnun þá verðlaunar hún manni og gefur af sér falleg fjólublá blóm.

Staðsetning: hún nýtur sín best í hillu á veggnum eða í hangandi blómapott.

Vökvun: Leyfið moldinni að þorna nokkuð vel milli vökvunar. En hún þarf tíðari vökvun á sumrin vegna hitans og breytingu á loftinu inni hjá okkur.

Stærð: Hún verður um 10 cm á hæð og getur orðið alt að 2-3 metrar á lengd.

Afleggjari Lítið mál er að taka afleggjara af string of hearts, og er í raun talin auðveldasta plantan til þess. En þegar hún er orðin frekar löng og þig langar að klippa smá af henni, þá er tilvalið að setja 3-4 stöngla saman í vatn í örfáa daga og setja síðan í lítinn pott með vikur í botninum og mold sem er góð fyrir kaktus en ég hef séð þá mold í t.d garðheimum.

Er hún eitruð: String of hearts er ekki talin eitruð börnum og gæludýrum.

helstu blómabúðir landsins eiga hana oft til hjá sér, þið þekkið hana á hjartalaga blöðunum. Núna eru einmitt plönturnar að tínast í búðirnar eftir jólatörnina, Nóg úrval og gaman að sjá hversu margar skemmtilegar tegundir eru að koma.

Kær kveðja
Ágústa