,

Innlit í sjarmerandi þakíbúð

Innlit dagsins er í sjarmerandi þakíbúð

Í dag kíkjum við í þakíbúð sem er mjög stílhrein og björt.Litapallettan er mjög einföld en hér sjást bara hvítir veggir, algjör andstæða við tískustraumana í innanhúshönnun í dag.Einsog flestir hafa eflaust tekið eftir þá eru veggir í ýmsum litum að koma sterkt inn.

Sjarminn yfir þessari íbúð er svo dásamlegur. Það má sjá fallegar upprunalegar gólffjalir og auðvitað draumurinn glerveggir, sem ég gerði sér færslu um.

Kíkjum nú á nokkrar myndir

Hér er horft inní stofu frá ganginum sem svefnherbergið og baðherbergið er.

 

Stofan og eldhúsið er í sama rýminu, ekki mjög stórt rými en huggulegt er það. sjáið þið hvað plönturnar setja mikinn svip á rýmið. Mjög sniðugt að nota þær til að fylla uppí rýmið í stað þess að hafa mikið af skrautmunum. Lifandi plöntur lífga líka svo uppá rýmið. Græni liturinn í þeim tónar líka svo vel við hvítu veggina og viðargólfið.

 

Sófinn er hafður á ská sem er ekki mjög algeng sjón, en gaman að sjá það til tilbreytingar.

 

Þegar litið er í eldhúshornið, þá má sjá gamalt borð, mér finnst nú bara þessar rispur á því gefa því meiri karakter, áfram sjáum við plönturnar, hráan viðinn og rustic blómapotta á móti hvítri stílhreinni inréttingunni.

Ég elska svona andstæður og finnst það ákaflega mikilvægt þegar verið er að innrétta rými. Og helst að nota ólík efni einsog við, plöntur og stein einsog sjá má á myndinni fyrir neðan, þá skapast hið fullkomna jafnvægi í rýminu.

 

 

Huggulegt og afar látlaust rými.

 

Ef við kíkjum inn ganginn þá sjá blómin enn um að skreyta heimilið. Það er fátt betra en nýafskorin blóm í vasa til að lífga uppá daginn. Þegar litið er uppí loftið, blasa við manni þessir dásemdar bitar sem gefa íbúðinni enn meiri karakter.

 

Þarna hægra megin sést glitta í eldhússkáp sem fellur svo vel að veggnum, sniðugt að halda honum hvítum og hlutlausum, sem passar einstaklega vel inní íbúðina.

 

Baðið er ekkert voðalega nýtískulegt en gólf og veggflísarnar gera gæfumuninn. Sjáið þið svo hvernig gólfefnið er látið flæða yfir allt og líka hjá sturtubotninum. Litlir hlutir eru svo látnir skreyta rýmið aðeins einsog sjá má í glugganum, falleg handklæði og lúpínur í vasa. það þarf ekki mikið meira en það.

 

 

Kíkjum næst inní svefnherbergið. það er ekkert voðalega stórt en mikið er það huggulegt. Þessi þakgluggi er algjör draumur, ýmindið ykkur að liggja þarna þegar farið er að dimma og horfa á stjörnubjartan himininn. Planta í Rustic pott fær að njóta sín og græni liturinn lífgar auðvitað uppá. Svo eru rúmfötin ekki að skemma fyrir. Hör rúmföt er náttúrulega algjör draumur, og litapallettan alveg að gera sig.

 

Hér setja rúmfötin punktinn yfir i-ið, græna plantan og svarti lampinn á móti hvíta veggnum er algjörlega málið.

 

Þetta litla skot í herberginu er svo krúttlegt. Nóg pláss til að líta í tölvuna, skoða tímarit eða mála sig. Alveg dásamlegt.  Þarna sést líka glitta í glerhurðina, ég fæ bara ekki nóg af þessum glerveggjum.

 

 

þarna væri ég til í að slaka á eftir langan dag.

 

Þetta heimili er svo látlaust en ótrúlega smart. Þegar skipulag íbúðar er svona gott, fallegt gólefni til staðar og tala nú ekki um glervegg sem poppar það upp, bitarnir í loftinu og þakgluggi þá er svo auðvelt fyrir mann að gera það enn heimilislegra með fáum en vel völdum hlutum.

Kveðja
Ágústa

,

Heitasta trendið – Glerveggir

Heitasta trendið í dag eru glerveggir með svörtum ramma til að aðskilja rými innan íbúðar. Svona veggir eru hrikalega töff og gera ótrúlega mikið fyrir rýmið. Það verður einhvernveginn léttara yfir rýminu og svo skreyta þeir rýmið svo mikið, þeir verða að svona statement piece að mínu mati.

Sniðugt að aðskilja mjög stór opin rými með þeim, eða setja upp milli t.d svefnherbergis og stofu eins og þið sáuð í þessum bloggpóst frá mér Sunnudags innlit í 45 fm stundum er rýminu ekki lokað alveg heldur bara settur t.d hálfur glerveggur sem nær þá ekki að vegg til veggs.

Það er svo gaman að sjá svona ný trend poppa upp, við skulum fá smá innblástur með því að líta á nokkrar myndir.

Hér er stofa og svefnherbergi aðskilið með glervegg, sem er mjög smart. Glerveggurinn stækkar rýmið töluvert heldur en ef að það væri venjulegur steyptur veggur þarna á milli. kemur skemmtilega út sérstaklega þar sem íbúðin er lítil.

 

Hér er veggurinn settur upp bara hálfa leið, og gaman að sjá hvernig gluggarnir í húsinu tengjast líka áfram inn í rýmið í glerveggnum.

 

Hér er einnig bara hálfur veggur.

 

 

Það væri nú ekki slæmt að liggja þarna og slaka á. ótrúlega flott að hafa svona tvöfalda glerhurð.

Já heitasta trendið í dag er alveg að falla í kramið hjá mér, ef ég væri i framkvæmdahugleiðingum þá myndu svona veggir rísa upp hjá mér.

Kveðja
Ágústa

,

Sunnudags innlit í 45 fm

Sunnudags innlit dagsins er í litla sæta Sænska íbúð.

Hún er aðeins 45 fm að stærð en þrátt fyrir það ótrúlega sjarmerandi og hugguleg íbúð. íbúðir þurfa nefnilega ekki alltaf að vera mjög stórar til að hægt sé að gera þær huggulegar. Maður þarf bara að vera úrræðagóður og hugsa útí hvern krók og kima íbúðarinnar.

Það sem heillaði mig mest við íbúðina var svarti glerveggurinn sem aðskildi stofuna frá svefnherberginu. Ég elska alla svona fídusa sem gefa íbúðum sinn einstaka karakter. Síðan er sett gardínubraut efst í loftið í svefneherberginu til að geta dregið þunnar gardínur fyrir og frá eftir því hvort þú viljir að sjáist inn eða ekki. Þetta bíður uppá það að þú getir látið rýmið virðast vera mun stærra en það er.

Við skulum kíkja á fleiri myndir og litlu smáatriðin sem þessi dásamlega íbúð hefur.

Hrikalega smart svartur glerveggur sem aðskilur stofuna og svefnherbergið. Gardínubrautin sem sett er í loftið inní svefnherberginu fæst í ikea.

Eldhúsið og stofan eru í opnu sameiginlegu rými sem er orðið frekar vinsælt núna og mun praktískara heldur en þegar eldhúsið var aðskilið stofunni. Þetta fyrirkomulag leyfir rýminu að anda meira og gefur því léttara yfirbragð.

Eruð þið að sjá hvíta háfinn yfir eldavélinni, þvílík dásemd. Það þykir oft ekki voða fallegt að hafa klunnalegan háf í eldhúsinu, hvað þá þegar rýmið er svona opið. En þessi er bara alveg að virka, og fallegt hvernig hann fellur að veggnum. Hvíti smeg ísskápurinn er líka alveg að njóta sín. Einnig er gaman að sjá annan lit á frontunum á eldhússkápunum heldur en svart eða hvítt.Græni liturinn gefur rýminu ferskt útlit. Hér er bara einhvernveginn allt að virka saman, finnst þér ekki?

Nýtískuleg heimilistæki eru alveg að passa inní þessa skemmtilegu blöndu af ólíkum stílum í eldhúsinu.

Mér finnst gólfefnið á íbúðinni algjör draumur og svo er ábyggilega voða notalegt að sitja þarna við eldhúgluggann hjá plöntunum og horfa út um gluggann. Og ábyggilega enn huggulegra á kvöldin þegar búið er að kveikja á smá kertum.

Við skulum næst líta inn í svefnherbergið. Þar halda mjúku tónarnir enn áfram og þarna glittir í ljósbláan vegg í svefnherberginu. Ljósu litirnir eru að koma líka ótrúlega vel út á móti svarta rammanum í glerveggnum. Plönturnar og viðargólfið setja svo punktinn yfir i-ið

Spegillinn lætur rýmið líta út fyrir að vera stærra.

Viðurinn heldur áfram inn í svefnherbergið í rammanum utanum spegilinn og hankarnir á veggnum.

Lítið en afar kósý

Viðurinn fær enn að njóta sín á ganginum. þarna er að finna ivar skápinn sem er á gólfinu, en í litlu rými er mjög sniðugt að vera með sniðugar hirslur. Tala nú ekki um mdf plötuna sem er skrúfuð á vegginn og geymir allskyns litla hluti sem mega ekki týnast.

Ég hafði mjög gaman af því að kíkja í litla heimsókn með ykkur á þessum rólega sunnudegi. Vona að þið hafið notið þess að skoða íbúðina með mér og litlu detailana sem var að finna í krókum og kimum.

Þangað til næst.

Kveðja
Ágústa